Lög Hjálparsveitar skáta Garðabæ
Garðabæ 3. október 2017

1. Kafli

1. gr.
Sveitin heitir Hjálparsveit skáta í Garðabæ, skammstafað H.S.G.
Sveitin hefur með sér samstarf við skátafélagið Vífil í Garðabæ.

2. gr.
Heimili sveitarinnar og varnarþing er í Garðabæ

3. gr.
Tilgangur sveitarinnar er: Að stunda almenna björgunar-, leitar- og hjálparstarfsemi, þegar verðmæti eða mannslíf eru í hættu, að halda uppi námskeiðum og æfingum fyrir félaga sína, svo þeir verði jafnan færir um að rækja markmið sveitarinnar og að afla þess búnaðar sem nauðsynlegur er til starfsins.

4. gr.
Merki sveitarinnar er hringur og inn í honum jafnarma kross ásamt nafni sveitarinnar. Merkið er grænt á appelsínugulum fleti.

2. Kafli.

5. gr.
Félagar geta þeir einir orðið sem uppfylla þessi skilyrði:

a) Eru fullra 18 ára.
b) Hafa starfað með sveitinni í 18 mánuði.
c) Uppfylla skilyrði samkvæmt reglugerð um nýliðaþjálfun.

Undanþágur:
Stjórn sveitarinnar er heimilt að veita einstaklingi undanþágu frá skilyrðum b og c-liðar. Þessari undanþágu skal aðeins beitt ef sá hinn sami hefur yfir að ráða einhverri sérþekkingu sem nýst getur sveitinni eða hann kemur frá annarri björgunarsveit innan Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Hann skal fá nauðsynlega kennslu og þjálfun sem stjórn telur þurfa til að vera fullgildur félagi HSG og að því loknu undirrita eiðstaf HSG.

Virkir félagar:
Til að vera virkur félagi í HSG þarf að vera fullgildur félagi í sveitinni og vera á útkallsskrá sveitarinnar. Virkir félagar hafa kjörgengi og atkvæðisrétt á sveitar- og aðalfundum. Virkir félagar eiga rétt á þeim styrkjum sem bjóðast hverju sinni frá sveitinni hvort sem um er að ræða námskeið, búnað eða annað.

Varamenn:
Ef fullgildur félagi dettur út af útkallsskrá sveitarinnar telst hann sjálfkrafa varamaður. Varamenn teljast ekki virkir félagar og eiga því ekki rétt á fjárframlögum frá sveitinni, hvort sem um er að ræða námskeið, búnað eða annað sem virkir félagar njóta Varamaður hefur seturétt á sveitar- og aðalfundum.

Til þess að verða fullgildur félagi á nýjan leik þarf félagi að komast aftur inná útkallsskrá sveitarinnar í samráði við stjórn og útkallsnefnd.

6. gr.
Við inngöngu í sveitina skal hver félagi undirrita eiðstaf H.S.G.

7. gr.
Inntökubeiðnir og úrsagnir úr sveitinni skulu vera skriflegar og sendar sveitarstjórn. Við brottför úr sveitinni getur félagi ekki gert tilkall til sjóða eða eigna sveitarinnar.

8. gr.
Félagi getur sætt brottrekstri úr sveitinni fyrir þessar sakir:

a) Ef hann verður uppvís að því að spilla áliti sveitarinnar eða vekja tortryggni hjá félögum hennar.
b) Ef hann hefur neytt áfengis eða annarra deyfilyfja í starfi sveitarinnar.
c) Ef hann verður uppvís að óviðunandi umgengni um eigur og tæki sveitarinnar.
d) Ef hann sýnir sveitinni ítrekuð vanskil.
[e) Ef hann brýtur eiðstaf sveitarinnar.]1

Nú ályktar stjórn að félagi sé brottrækur úr sveitinni. Skal hún tilkynna það skriflega. Sætti hlutaðeigandi sig ekki við úrskurð stjórnar getur hann skotið máli sínu til næsta sveitarfundar.

3. Kafli

9. gr.
Sveitinni skal skipt niður í flokka. Sveitin getur sett reglugerðir um flokkaskiptingu og einstaka þætti starfseminnar.

10. gr.
Æðsta vald í málefnum sveitarinnar er í höndum aðalfundar. Aðalfundur skal haldinn í október ár hvert. Stjórn sveitarinnar er heimilt með samþykki sveitarfundar að fresta aðalfundi fram til 15. nóvember ef sérstaklega stendur á. Atkvæðisrétt hafa allir fullgildir og virkir félagar sem eru skuldlausir við sveitina. Á aðalfundi skulu eftirfarandi mál vera á dagskrá:

1. Skýrsla stjórnar.
2. Reikningar félagsins fyrir liðið starfsár.
3. Skýrslur fastanefnda og flokka
4. Lagabreytingar.
5. Kosning stjórnar og fastanefnda.
6. Ákvörðun félagsgjalds.
7. Önnur mál.

Skýrsla stjórnar, fastanefnda og flokka ásamt reikningum félagsins skulu liggja frammi á fundinum.

11. gr.
Sveitarfundir skulu haldnir eigi sjaldnar en á þriggja mánaða fresti. Þó getur sveitarstjórn boðað til fundar þegar henni þykir þess þörf. Ennfremur er stjórninni skylt að boða til sveitarfundar ef a.m.k 20 atkvæðisbærra félaga óskar þess skriflega og greinir fundarefni. Nú hefur stjórn sveitarinnar ekki boðað til fundar innan 14 daga eftir að henni barst krafan og geta þá hlutaðeigandi félagar sjálfir kvatt til fundar. Rétt til setu á fundum hafa þeir félagar sem greitt hafa ársgjöld viðkomandi árs.

12. gr.
Fundir eru lögmætir ef réttilega er til þeirra boðað. Ef fundur hefur ekki verið löglega boðaður skal boða til nýs fundar innan viku.

Til allra funda skal boða með minnst 3ja daga fyrirvara. Auglýsing skal birt á heimasíðu sveitarinnar og telst það nægileg birting. Stjórnin getur einnig ákveðið að boða til funda með sérstöku fundarboði eða auglýsingu.

Einfaldur meirihluti atkvæða ræður málsúrslitum á fundi nema öðru vísi sé mælt fyrir um í lögum þessum.

Fundargerð skal haldin um hvern fund. Fundarritari skal staðfesta fundargerðina og birta á lokuðu vefsvæði sveitarinnar eigi síðar en 1 viku eftir fund. Fundarritari varðveitir fundargerðir funda.

13. gr.
Stjórn sveitarinnar skal skipuð 5 mönnum: Formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera og einum meðstjórnanda. Skulu þeir kosnir á aðalfundi og einnig 2 menn til vara.

Fastanefndir sveitarinnar skulu vera: Birgðanefnd, skemmtinefnd, fjáröflunarnefnd, uppstillingarnefnd, útkallsnefnd og laganefnd. Nefndir skulu starfa samkvæmt reglugerð sem aðalfundur eða félagsfundur setur.

Stjórnar- og nefndarmenn skulu kosnir skriflega ef fleiri eru í kjöri samkvæmt tilnefningu en á að kjósa. Kjörtími stjórnar er 1 ár. Endurkjósa má stjórn svo oft sem menn vilja. Engan má kjósa í stjórn nema hann sé félagi sveitarinnar. Allir félagar eru réttkjörnir í stjórn sem við kosningu fá fullan helming atkvæða.

Formaður boðar til stjórnarfunda. Stjórnarfundur er lögmætur ef minnst 3 stjórnarmenn eru mættir. Úrslitum ræður afl atkvæða, en séu þau jöfn ræður atkvæði formanns. Fundargerðir stjórnarfunda skulu skráðar á tölvutæku formi og birtar á vefsíðu sveitarinnar, sé slíkt mögulegt, eða látnar liggja frammi í félagsaðstöðu sveitarinnar eigi síðar en einni viku eftir stjórnarfund.

Stjórnin boðar til sveitarfundar og undirbýr málefni, framkvæmir fundarályktanir og annast störf milli funda. Stjórnin leggur fyrir aðalfund til samþykktar reikninga sveitarinnar fyrir liðið starfsár. Reikningar skulu vera áritaðir af endurskoðendum eða skoðunarmönnum sveitarinnar.

Stjórnin hefur eftirlit með öllum framkvæmdum sveitarinnar og annast eftirlit með eignum hennar, ákveður framkvæmdir, annast um gerð rekstraráætlunar,sér um greiðslu útgjalda og hefur á hendi önnur þau störf sem henni er falin samkvæmt samþykkt aðalfundar eða sveitarfunda. Stjórnin gætir hagsmuna sveitarinnar og getur nýtt þau réttarúræði sem lög bjóða til að verja hagsmuni sveitarinnar.

Innan sveitarinnar starfar sveitarráð. Sveitarráð skal skipað fulltrúum stjórnar og allra starfandi flokka sveitarinnar á hverjum tíma. Hlutverk sveitarráðs er að vera samráðsvettvangur stjórnar og flokka. Ráðið skal vera stjórninni til ráðgjafar um ýmis málefni sem tengjast starfi sveitarinnar s.s þjálfunarmál, búnaðarkaup, húsnæðismál o.fl. Sveitarráð hefur frumkvæði að gerð tillögu að dagskrá sveitarinnar fyrir komandi starfsár. Sveitarráð heldur fundi eftir þörfum en að lágmarki skal haldinn einn fundur fyrir upphaf starfsárs til gera tillögu að dagskrá sveitarinnar.

14. gr.
Allir þeir samningar sem stjórn gerir fyrir hönd sveitarinnar samkvæmt samþykktum þessum eða fundarályktunum í sveitinni eru bindandi fyrir sveitina. Stjórnendur 3 saman skuldbinda sveitina. Þó getur stjórnin ekki veðsett eignir sveitarinnar án samþykkis 2/3 hluta ályktunarbærs aðalfundar eða löglega boðaðs sveitarfundar. Stjórnin ber ábyrgð gjörða sinna fyrir aðalfundi.

15. gr.
Hver aðalfundur kýs tvo skoðunarmenn. Skulu þeir vera félagar sveitarinnar. Kjörtími þeirra er eitt ár. Sveitarstjórn er heimilt að fela löggiltum endurskoðanda endurskoðun ásamt hinum kjörnu skoðunarmönnum. Skoðunarmenn skulu sannprófa að reikningar sveitarinnar beri saman við bækur hennar. Reikningsár sveitarinnar er frá 1. september til 31. ágúst ár hvert.

16. gr.
Sjóði sveitarinnar skal ávaxta í banka með ríkisábyrgð. Ef starfssemi H.S.G. leggst niður skulu eignir og tæki sveitarinnar vera í vörslu skátafélagsins Vífils eða að öðrum kosti bæjarstjórnar Garðabæjar, fyrstu 10 mánuðina. Ef engar tilraunir hafa verið gerðar til að endurvekja sveitina að þeim tíma liðnum skal lúta lögum L.H.S.

4. Kafli

Ýmis ákvæði.

17. gr.
Sveitin er aðili að Landssambandi hjálparsveita skáta, L.H.S. og Slysavarnarfélaginu Landsbjörg og lýtur lögum og samþykktum þess eftir því sem við á. Sveitin skal jafnan kappkosta að hafa samstarf við yfirvöld, stjórn Almannavarna og aðra björgunaraðila í landinu og sýna tillitsemi og drengskap í starfi sínu.

18. gr.
Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi. Tillögur til breytinga á lögum

sveitarinnar skulu koma fram í fundarboði eða auglýsingu aðalfundar og þurfa samþykki minnst 2/3 hluta fundarmanna til að öðlast gildi. Tillögur sem ekki koma fram í fundarboði eða auglýsingu aðalfundar þurfa samþykki minnst 4/5 hluta fundarmanna.

19. gr.
Sveitin getur sett reglugerðir um einstaka þætti starfseminnar m.a. um flokkaskiptingu, flokkakerfi, fastanefndir, starfsemi einstakra flokka og fjölda félaga/nýliða í hverjum flokki, þjálfunarkröfur félaga og búnað þeirra o.s.frv.

Setning nýrra reglugerða og breyting á þeim þarf samþykki einfalds meiri hluta á aðalfundi eða með samþykki 2/3 hluta fundarmanna á sveitarfundi. Tillaga að setningu eða breytingu reglugerða skal ávallt getið í dagskrá fundar.

© Hjálparsveit skáta Garðabæ - Jötunheimar við Bæjarbraut -  210 Garðabær - hjalparsveit@hjalparsveit.is

kt: 431274-0199 - Styrktarreikningur: 0546-26-900